Hagvöxtur mældist 1% í Bretlandi á þriðja ársfjórðungi og hefur annað eins ekki sést þar í landi í fimm ár, samkvæmt upplýsingum frá bresku hagstofunni. Mestu munar um Ólympíuleikana í London á fjórðungnum, sem hjálpaði til við að hífa landið upp úr kreppunni.

Þetta er 0,4 prósentustigum meiri hagvöxtur en meðalspá Bloomberg-fréttaveitunnar hljóðaði upp á. Þetta er meira að segja betra en bjartsýnustu spár hljóðuðu upp á eða 0,8%.

Bloomberg segir hins vegar að þrátt fyrir að tölurnar geti gefið forsætisráðherranum David Cameron byr undir báða vængi til skamms tíma þá verði að hafa á bak við eyrað áminningu seðlabankastjórans Mervyn King, að efnahagsbatinn sé hægur og sveipaður óvissu.

Bloomberg hefur jafnframt eftir hagfræðingi hjá Westpac Banking Corp. í London, að þrátt fyrir jákvæð teikn nú þá sé reiknað með stöðnun út næsta ár.