Ef ekkert verður að gert mun viðskiptabann Evrópusambandsins gegn ákveðnum einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum í Zimbabwe renna út á miðvikudaginn. Vilji er fyrir því meðal utanríkisráðherra ESB ríkja að viðhalda þeim að einhverju leyti, en deilur milli Breta og Belga gætu leitt til þess að refsiaðgerðirnar renni út án þess að nýjar komi í staðinn. Aðgerðirnar taka til um 20 einstaklinga í Zimbabwe.

Deilurnar snúast um demanta- og gullnámufyrirtækið Zimbabwe Mining Development Corporation, sem er í eigu þarlendra stjórnvalda. Bretar hafa áhyggjur af því að verði viðskiptabanninu aflétt í tilviki þessa fyrirtækis geti ríkisstjórn Roberts Mugabe notað tekjur fyrirtækisins til að fjármagna pólitískt ofbeldi gegn stjórnarandstöðunni í væntanlegum kosningum í landinu. Þá sé aðstaða starfsfólks fyrirtækisins afar slæm og fréttir berast af mannréttindabrotum gegn þeim.

Belgar segja aftur á móti að aðstæður hjá fyrirtækinu hafi breyst mjög til batnaðar. Í frétt breska blaðsins Telegraph er stuðningur Belga við afnám aðgerðanna hins vegar tengdur við demantaverslun í belgísku borginni Antwerpen. Belgar hafi mikinn áhuga á því að fá demanta frá Zimbabwe inn á belgíska markaðinn.