Bretar og Hollendingar gáfu leyfi fyrir því að netreikningar sem báru ofurvexti voru boðnir út í löndunum. Það voru einnig Bretar og Hollendingar sem áttu að hafa eftirlit með lausafé í útibúunum, en eins og kunnugt er knésetti lausafjárskortur Landsbankann.

Þetta kemur fram í áliti frá 2. minnihluta efnahags- og skattanefndar, þeirra Tryggva Þórs Herbertssonar og Péturs Blöndal, þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Þeir draga þá ályktun að ábyrgð breskra og hollenskra stjórnvalda virðist því vera umtalsverð. Þá segja þeir að til að undirstrika enn frekar ábyrgð gistiríkis, sem í þessu tilviki eru Bretland og Holland, þá renni fjármagnstekjuskattur af reikningunum til þess en ekki til heimaríkis, sem er Ísland í tilviki Landsbankans

Misskilnings hefur gætt í umræðunni

Tryggvi Þór og Pétur segja í áliti sínu að mikils misskilnings hafi gætt í umræðunni um hver ábyrgð Breta og Hollendinga sé í raun á Icesave-reikningunum. Þeir segja að ef fjármálafyrirtæki hyggist opna útibú í öðru landi á EES-svæðinu sé um einfalt ferli að ræða:

  1. Fjármálafyrirtækið sendi tilkynningu til fjármálaeftirlits þar sem móðurfélag er staðsett.
  2. Fjármálaeftirlitið geti stöðvað opnun útibús ef fjármálafyrirtækið er fjárhagslega vanbúið á þeim tímapunkti og stjórn þess ekki nægilega traust. Bæði skilyrði þurfi að vera uppfyllt.
  3. Ef fjármálafyrirtækið uppfylli kröfur um fjárhagslega burði til að stjórna slíku útibúi tilkynni fjármálaeftirlit heimaríkis, Íslands, gistiríki, Bretland og Holland, um fyrirætlan fjármálafyrirtækisins.
  4. Fjármálafyrirtækið geti opnað útibú í gistiríki að uppfylltum almennum skilyrðum gistiríkis.

Gistiríkið þarf að samþykkja innlánsreikningana

Í álitinu segir að fjármálafyrirtæki þurfi því ekki sérstakt leyfi frá heimaríki, heldur nægi að senda einfalda tilkynningu um áformin. Til að stöðva fyrirætlan fjármálafyrirtækis yrði heimaríkið að svipta fjármálafyrirtækið starfsleyfi.

Aðkoma gistiríkisins sé hins vegar meiri, en um hana segir í álitinu: „Þær fjármálaafurðir sem fyrirtækið ætlar að bjóða upp á þurfa að hljóta samþykki fjármálaeftirlits gistiríkis en eru óháð fjármálaeftirliti heimaríkis. Ef um innlán er að ræða gera tryggingarsjóðir heima- og gistiríkis með sér samning (ef um mismunandi tryggingarupphæðir er að ræða) og fjármálafyrirtækið getur hafið móttöku innlána.“

Þá segir að eftirlit sé af tvennum toga og í höndum bæði heimaríkis og gistiríkis: „Fjármálaeftirlit heimaríkis hefur hefðbundið eftirlit með móðurfélagi, þ.m.t. útibúi. Fjármálaeftirlit gistiríkis hefur með neytendavernd (í þessu tilfelli eftirlit með innlánsreikningum) að gera og lausafjárstöðu útibús.“