Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði, á blaðamannafundi í stjórnarráðinu í morgun, að það væri á hreinu að Bretar og Hollendingar hefðu rætt við Svía, sem nú fara með formennsku í Evrópusambandinu, um Icesave-málið.

Blaðamannafundurinn í morgun snerist um þá ákvörðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að taka ekki fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og Íslands eftir helgi eins og ráðgert hafði verið. Þar með frestast önnur greiðsla láns AGS til Íslendinga og fyrsta greiðsla láns Norðurlandanna.

Í skýringum íslenskra stjórnvalda um málið í tilkynningu í gærkvöld segir m.a. að sjóðurinn hafi „staðreynt að fjármögnun efnahagsáætlunarinnar með greiðslum frá utanaðkomandi aðilum, m.a. Norðurlöndunum, hafi ekki verið tryggð."

Þegar Steingrímur var spurður út í þetta atriði með tilliti til þess að lánasamningar við Norðurlöndin hefðu verið undirritaðir í Stokkhólmi í júlíbyrjun svaraði hann því m.a. til að með greinargerð sem fylgdi frumvarpi til sænska þingsins um lánafyrirgreiðslu til Íslendinga væri miðað við að Icesave-málið yrði leyst.

Danir fylgja Svíum að málum

„Í norska þinginu er þetta óbeinna en þar er þó tilvísun í efnislega hið sama. Danir hafa fylgt Svíum að málum og Finnar hafa nú sjálfir útskýrt sína stöðu í málinu," sagði Steingrímur og bætti við að stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum yrðu að útskýra málið frekar.

Steingrímur benti þó á að Svíar færu með formennsku í ESB „og við skulum hafa það á hreinu að Hollendingar og Bretar ræða við þá. Þar eru samskipti á milli," sagði hann.

Steingrímur sagði að vonir hefðu staðið til að hægt yrði að taka fyrir fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda í næstu viku þrátt fyrir að Icesave-málið væri enn til meðferðar á Alþingi. „Okkur var ekki ljóst fyrr en í gær og gærkvöld að þetta myndi leiða til þess að fyrirtakan gæti ekki farið fram."

Ný dagsetning á endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hefur ekki verið ákveðin.

Sjá nánari umfjöllun um blaðamannafundinn hér.