„Nú þegar það liggur fyrir að þetta lendir ekki lengur á Íslandi þá snúa þeir sér aftur að sjóðnum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra spurður um mál hollenska seðlabankans og breska innstæðusjóðsins á hendur Tryggingasjóði innstæðueigenda.

Spurður um málið sagði Sigmundur í samtali við RÚV enga ábyrgð á Tryggingasjóði innstæðueigenda og því ljóst að skattgreiðendur taki ekki á sig birgðarnar af Icesave-málinu. Tryggingasjóðurinn er nánast tómur miðað við kröfu Breta og Hollendinga. Í honum eru rétt rúmlega 18 milljarðar króna.

Eins og fram kom fyrr í dag nemur krafan um 556 milljörðum króna og felur í sér lágmarkstryggingu fyrir hvern þann sem átti innstæðu á Icesave-reikningum gamla Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Ef vextir og annar kostnaður er lagður við kröfuna fer hún í eitt þúsund milljarða króna.

Málið er ekki nýtt af nálinni. Stefna var birt rétt undir lok október í fyrra og málið þingfest mánuði síðar.