Meðaltekjur Breta á þessu ári munu verða hærri heldur en Bandaríkjamanna í fyrsta skipti síðan á 19. öld, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Oxford Economics. Tekjur á hvern íbúa í Bretlandi munu nema samtals 23.500 pundum á árinu - 250 pundum hærra heldur en í Bandaríkjunum. Á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC), þar sem fjallað er um skýrsluna, segir hins vegar að sökum þess að vörur og þjónusta eru dýrari í Bretlandi, muni kaupmáttur Bandaríkjamanna enn verða meiri.

Árið 1993 sagði Oxford Economcis, í kjölfar mikillar niðursveiflu í bresku efnahagslífi, að verg landsframleiðslu á mann í Bretlandi væri 34% lægri heldur en í Bandaríkjunum, 33% minni en í Þýskalandi og 26% lægri en í Frakklandi.

"Við erum ekki lengur "veiki maðurinn í Evrópu"," er haft eftir Adrian  Cooper, framkvæmdastjóra stofnunarinnar, á fréttavef BBC.

Nánar verður fjallað um tekjur Breta í Viðskiptablaðinu á morgun.