*

laugardagur, 5. desember 2020
Erlent 12. febrúar 2019 10:15

Bretar semja um fríverslun

Á sama tíma og hagvöxtur í Bretlandi dregst saman vegna óvissu semur ríkið við fríverslun við ríki víða um heim.

Ritstjórn
Liam Fox viðskiptaráðherra Bretlands, Guy Parmelin alríkisráðherra Sviss og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein skrifuðu saman undir samkomulagið.
epa

Stærsti fríverslunarsamningur Bretlands frá því að landið ákvað að segja sig úr ESB er í höfn, en hann er við Sviss og Liechtenstein. Árið 2017 námu viðskipti ríkjanna um 32 milljörðum punda, eða sem samsvarar 5 billjónum (5.000 milljörðum) íslenskra króna.

Breska hagkerfið hefur ekki vaxið jafnlítið og á síðasta ári í sex ár, en hagvöxturinn nam 1,4% á árinu. Árið hafði byrjaði mun betur en það dró hratt saman undir lok ársins, þannig var hagvöxturinn 2,5% á þriðja ársfjórðungi, en fór niður í 0,7% síðustu þrjá mánuði ársins, en í desember var 0,4% samdráttur. Segir WSJ ástæðuna óvissu vegna útgöngu Bretlands úr ESB.

Stjórnvöld í Bretlandi hafa náð samkomulagi við Sviss um að fríverslun landanna haldi áfram óhindrað eftir að landið gengur úr Evrópusambandinu 29. mars næstkomandi. Skrifaði Liam Fox, viðskiptaráðherra landsins undir samkomulagið í Bern, höfuðborg Sviss í dag.

Munu breskir bílaframleiðendur nú geta forðast allt að 8 milljón punda í tolla af útflutningi sem tæki gildi ef samkomulagið væri ekki til staðar, og álútflutningsfyrirtæki geta forðast andvirði 4 milljóna punda í tolla auk þess sem gimsteina og málmútflytjendur geta forðast svipaða upphæð í tollagreiðslur að því er stjórnvöld í Bretlandi greina frá.

Stjórnvöld í Bretlandi hyggjast endurnýja um 40 núverandi fríverslunarsamninga sem Bretland hefur aðgang að í gegnum Evrópusambandið, við 71 ríki, þar á meðal ríki eins og Japan, Kanada og Suður Kóreu.

Nema samningarnir um 11% af heildarutanríkisviðskiptum Bretlands, og segir Fox að stjórnvöld hafi tryggingu fyrir því að samkomulag geti náðst við mörg þessara ríkja.

Enn sem komið er hafa stjórnvöld þó einungis skrifað undir samkomulag um áframhaldandi óhindruð viðskipti við Færeyjar, Síle, Ísrael auk nokkurra ríkja í suðurhluta Afríku en átt í vandræðum með að ná samkomulagi við hin ríkin að því er FT fullyrðir. Ef svo færi myndu viðskiptin milli milli ríkjanna þó halda áfram, en þá á grundvelli reglna alþjóðaviðskiptaráðsins.

Stikkorð: Sviss Bretland hagvöxtur fríverslun Liam Fox