Útflutningur á áfengum drykkjarvörum frá Íslandi hefur færst talsvert í aukana á síðustu misserum. Í fyrra var talsvert flutt út af drykkjarvörum og þá sérstaklega til tveggja landa. Annars vegar Bandaríkjanna, en þangað voru fluttar út áfengar drykkjavörur að verðmæti tæplega 350 milljónir króna og var það 54% af öllum áfengum drykkjum sem fluttir voru út. Hins vegar var einnig flutt út talsvert af áfengum drykkjum til Bretlands, eða að verðmæti 137 milljónir króna alls samkvæmt tölum Hagstofu Íslands sem Íslandsstofa hefur tekið saman

Áhugavert er að rýna í markaðinn í Bretlandi en Ingólfur Frið­riksson, sendiráðunautur við sendiráð Íslands í Lundúnum, fjallaði til að mynda um Brexit og utanríkisviðskipti á morgunverð­arfundi sem atvinnuvegaráðuneytið hélt nýverið. Hann benti á að útflutningstölur sýna nokkurn innflutning bæði á bjór og öðru áfengi til Bretlands í fyrra. Ef útflutningur á áfengi er talinn með sem landbúnaðarvara þá er áfengið nálega einn sjötti af landbúnaðarútflutningi Íslands til Bretlands, eða um 137 milljónir af sirka 650 milljónum árið 2016.

Aðallega bjór í gleri og vodka

Ingólfur bendir á að aðallega sé um að ræða bjór í gleri og leiðir líkum að því að þar sé að stórum hluta um að ræða útflutning á bjórnum Einstök og svo hins vegar vodka, sem gæti verið útflutningur á Reyka vodka. Þó að útflutningurinn bliknar í samanburði við útflutning á sjávarútvegsvörum, en fluttur var út fiskur til Bretlands fyrir 41 milljarð í fyrra, þá er áhugavert að sjá að við flytjum nú út tvær vörur sem Bretar eru þekktir fyrir að gæða sér á; Annars vegar bjór og hins vegar fisk.

Bjór og vodka útflutningur
Bjór og vodka útflutningur

Þegar litið er á magntölur þá fluttu íslenskir framleiðendur 205,7 tonn af bjór í gleri til Bretlands árið 2015 en útflutningurinn jókst talsvert milli ára og var 316,1 tonn árið eftir. Fyrstu fjóra mánuði þessa árs höfðu verið flutt út 72 tonn af bjór. Verðmæti bjórútflutningsins árið 2015 nam 43,5 milljónum íslenskra króna en jókst um ríflega 14 milljónir milli ára og nam 57,6 milljónum króna árið 2016.

Einnig var talsverður útflutningur á vodka frá Íslandi til Bretlands en árið 2015 voru flutt út 851,7 tonn af vodka frá landinu að verðmæti 53,6 milljónir króna. Í fyrra jókst útflutningurinn umtalsvert og út voru flutt 1.095 tonn að verðmæti 71 milljón íslenskra króna. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs er útflutningurinn einnig á góðu róli en flutt hafa verið út tæplega 450 tonn af vodka samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Útflutningur á áfengi - Bretland
Útflutningur á áfengi - Bretland

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .