Evrópusambandið (ESB) hefur krafið Bretland um viðbótargreiðslur að fjárhæð 1,7 milljörðum punda ofan á það sem landið hefur þegar greitt til sambandsins undanfarin ár. BBC News greinir frá málinu.

Krafa ESB kemur í kjölfar nýrra útreikninga sambandsins á því hve mikla fjármuni hvert aðildarríki skuli reiða af hendi í sjóði þess. Bretland hefur undanfarin ár greitt árlega um 8,6 milljarða punda. ESB segir hins vegar að breskur efnahagur hafi verið í mun betri málum undanfarin ár en búist hafi verið við og því beri ríkinu að greiða hærri fjárhæð til sambandsins.

Heimildarmaður BBC innan bresku ríkisstjórnarinnar segir að krafa ESB sé algjörlega óásættanleg. Þá hefur þingmaður breska Íhaldsflokksins sagt að Bretar ættu hreinlega að neita því að greiða fjárhæðina, þar sem krafan væri algjörlega óréttlát og stríddi gegn öllum meginreglum um sanngjarna skattlagningu.