Líklegt má telja að Bretar gætu orðið stórir kaupendur grænnar orku frá Íslandi. Töluverð umræða hefur verið um lagningu sæstrengs frá Íslandi en í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag er bent á að breskir nágrannar okkar gætu orðið þakklátir viðbótinni.

Í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2009 þarf heildarorkuneysla innan Evrópusambandsins að koma að fimmtungi frá endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2020. Hvert land þarf að ná sérstöku markmiði sem sett er að teknu tilliti til þess hversu mikið kemur þegar frá endurnýjanlegri orku, auðlinda innanlands, hagrænna aðstæðna o.s.fr.v.

Samkvæmt nýbirtu yfirliti frá Hagstofu ESB um það hvernig aðildarríkjunum gengur að ná sínum markmiðum er Bretar hvað styst komnir.

Í markaðspunktunum segir að slá megi því föstu að eftirspurn eftir grænni orku muni gera fátt annað en vaxa á komandi áratug. Því muni verð grænnar orku verða hagfelldara en ella, ekki síst ef grænir hvatar á borð við vottorð, eða samninga sem tryggja jafnaðarverð til lengri tíma koma til.

Þetta segir greiningardeildin góðar fréttir fyrir íslensk orkufyrirtæki, sem virðist eiga mikla framleiðslugetu inni, bæði með jarðvarma og vatnsafli, og jafnvel vindorku.