Breska ríkisstjórnin hefur sagt að hún sé ekki reiðubúin til að taka upp verndarstefnu í ríkara mæli undir því yfirskini að nýleg kaup svokallaðra ríkisfjárfestingarsjóða (e. sovereign wealth funds) á einkafyrirtækjum þar í landi ógni þjóðarhagsmunum. Þetta kom fram í fyrstu stóru ræðunni sem Alistair Darling, nýr fjármálaráðherra í ríkisstjórn Gordon Browns, flutti á breska þinginu í gær, að því er fram kemur í Financial Times. Darling sagði jafnframt að bresk stjórnvöld myndu standa í vegi fyrir öllum tilraunum sem miðuðu að því að torvelda erlendum aðilum að fjárfesta í breskum fyrirtækjum.

Varað við uppgangi verndarstefnu
Ummæli Darling koma í kjölfar þess að Kínverski þróunarbankinn (CDB), sem er í eigu þarlendra stjórnvalda, og Temasek, fjárfestingararmur ríkisstjórnarinnar í Singapúr, keyptu stóran hlut í breska bankanum Barclays síðastliðinn mánudag. Ákvörðun Barclays að leita til asískra fjárfesta um að kaupa hlutafjár í bankanum var gerð í því augnamiði að Barclays gæti hækkað yfirtökutilboð sitt í ABN Amro. Ef yfirtaka Barclays á hollenska bankanum verður að veruleika munu stjórnvöld í Kína og Singapúr eignast um 10% hlut í breska bankanum - hlutur Kínverja verður tæplega 8% - og ljóst að CDB yrði stærsti einstakaki hluthafinn í Barclays.

Darling sagði í ræðu sinni að ekki væri von á stefnubreytingu breskra yfirvalda í þessum efnum þrátt fyrir atburði síðustu daga. Þvert á móti þá kom fram í máli Darling að stjórnvöld fögnuðu allri fjárfestingu erlendra aðila í bresku viðskiptalífi, en að sama skapi ítrekaði hann þá skoðun ríkisstjórnarinnar að sömu stjórnvöld og væru að kaupa eignir í Bretlandi þyrftu að opna sína eigin markaði heima fyrir.

Sir John Gieve, aðstoðarseðlabankastjóri Englandsbanka, varaði hins vegar við því í gær að aukin völd og umsvif ríkisfjárfestingarsjóða á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarin misseri myndu leiða til pólitískrar spennu og auk þess setja þrýsting á stjórnmálamenn um að tala máli verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum í auknum mæli.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.