Verðþróun á breskum fasteignamarkaði, sem hefur einkennst af mikilli hækkun á íbúðaverði, gæti leitt til verðhruns, að mati breska seðlabankans. Bankinn segir í nýlegri skýrslu um fjármálastöðugleika í Bretlandi að verðhækkun á fasteignamarkaði þar í landi hafi verið ískyggilega mikil upp á síðkastið.

Breska dagblaðið The Guardian hefur eftir sir Jon Cunliffe, sem fer fyrir fjármálastöðugleikaráði Bretlands, að seðlabankinn gæti þurft að grípa til aðgerða til að hægja á verðhækkun á fasteignamarkaði. Á móti verðhækkunum koma verri aðstæður á fasteignamarkaði en fyrir hrun, þ.e. íbúðaverð er tiltölulega dýrt á sama tíma og erfiðara er að skuldsetja sig en áður.