Bresk stjórnvöld hafa varað viðskiptalífið þar í landi við þeirri áhættu sem fylgir því að fjárfesta í Rússlandi um þessar mundir. Þetta kemur fram í frétt Financial Times í gær, en yfirlýsing þessa efnis kemur í kjölfarið á því að ráðamenn í Moskvu eru að undirbúa aðgerðir sem miða að því að þjarma að starfsemi erlendra orkufyrirtækja þar í landi. Í sumum tilvikum er jafnvel um að ræða yfirtöku á eignum alþjóðlegra fyrirtækja.

Að mati breska utanríkisráðuneytisins fylgir því mun meiri áhætta en áður fyrir bresk fyrirtæki að stunda viðskiptastarfsemi í Rússlandi og til vitnis um það sé fjölmargar vísbendingar. Opinberlega eru varnarorð bresku utanríkisþjónustunnar þau að fyrirtæki sem hyggjast fjárfesta í Rússlandi "ættu ekki að vanmeta þær hindranir sem eru til staðar á þeim markaði".

Á sama tíma og Bretar vara fjárfesta við því að eiga í viðskiptum við Rússa, ætlar Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra landsins, að hitta Vladímír Pútín Rússlandsforseta á fundi G8 ríkjanna í Þýskalandi í dag og eiga við hann "hreinskilnar" viðræður, eins og hann orðaði það við fjölmiðla í vikunni. Í samtali við Financial Times sagði talsmaður Blair að það væri aðeins "heilbrigð skynsemi að fyrirtæki fjárfesti aðeins á þeim stöðum þar sem þau trúa því að fjárfestingar sínar séu öruggar." Hann bætti því jafnframt við að Evrópusambandið hefði komið þeim skilaboðum áleiðis til Rússa að þeir þyrftu að hafa lýðræðisleg gildi í hávegum. "Ef ekki, þá mun Rússland ekki laða til sín það erlenda fjármagn sem landið þarf á að halda".

Að undanförnu hafa Kremlarbændur ráðist gegn starfsemi breskra orkufyrirtækja í Rússlandi: Ráðandi hlut olíufyrirtækisins Royal Dutch Shell í Sakhalin-2 olíu og gasframleiðsluverkefninu í austurhluta Rússlands sem er metið á 20 milljarða punda og auk þess hótað að segja upp leyfi British Petrol (BP) - og samstarfsfyrirtækja þess - um að vinna olíu og gas á stóru svæði í Síberíu. Það er fastlega gert ráð fyrir því að BP-hópurinn muni missa leyfi sitt í lok þessa mánaðar, þrátt fyrir að félagið vonist eftir því að samningar náist við Gazprom.

Spenna í samskiptum þessa tveggja fyrrum heimsvelda hefur verið ört vaxandi eftir að bresk stjórnvöld kröfðu Rússa um að framselja athafnamanninn Andrei Lugovoj vegna morðsins á fyrrum leyniþjónustumanninum Alexander Lítvínenko. Rússar tóku hins vegar fálega í þær kröfur. Í frétt Financial Times er haft eftir einum háttsettum manni innan bankaheimsins að bresk yfirvöld hafi farið að vara bresk fyrirtæki um að stunda viðskipti Rússland í kjölfar þeirra deilna sem spruttu upp á milli þjóðanna vegna morðsins á Lítvínenko.

Aukin áhætta við að fjárfesta í Rússlandi og versnandi samskipti ráðamanna í Kreml og Vesturlanda undanfarin ár hafa hins vegar alls ekki dregið úr áhuga erlendra fyrirtækja. Könnun sem hagsmunasamtök fyrir erlenda fjárfesta í Rússlandi létu gera á síðasta ári leiddi í ljós að tekjur þeirra af viðskiptastarfsemi þar í landi hefði aukist um 40% á árinu 2005 og hagnaður um þriðjungs fyrirtækja hefði jafnframt hækkað um 30% á sama ári.