Bretland fjármagnar uppbyggingu ferðamannasvæðis við Kötlu þrátt fyrir að íslensk þjóð sé mun auðugri en flestar aðrar þjóðir. Um 24 milljónir punda koma frá Brussel til þess að undirbúa Ísland fyrir inngöngu í ESB, þó tveir af hverjum þremur Íslendingum vilji ekki ganga í sambandið.

Þetta skrifar Colin Freeman, blaðamaður á Telegraph, í pistli sem birtist á vefsíðu fjölmiðilsins í dag. Um einn sjötti af upphæðinni sem sett er í jarðvanginn Kötlu kemur frá Bretlandi. Alls nemur styrkurinn um 560 þúsund pundum, jafnvirði um 112 milljóna króna.

Pistlahöfundurinn á Telegraph gefur þeim ráð  sem enn er illa við að Ísland skuldi Bretlandi 2,3 milljarða punda vegna bankahrunsins. Hann bendir þeim á að koma ekki nálægt nýrri upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn við Eyjafjallajökul.