Starfsmenn í breska fjármálageiranum eru ekki líklegir til að slaka vel á í sumarfríinu en um 83% þeirra viðurkenna að taka farsímann eða „Blackberry-inn“ með sér í sumarfríið og munu þannig athuga tölvupóst sinn reglulega eða vera í sambandi við vinnuna á einn eða annan hátt.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn en frá þessu er greint á vef Reuters.

Samtökin Credant Technologies gerði athugun meðal 300 starfsmenn úr fjármálalífi Lundúna og segja í niðurstöðum hennar að ljóst er að allflestir taka vinnuna með í sumarfríið.

Þá kom fram að rúmlega 65% þátttakanda sögðu að þeir myndu vera í sambandi við skrifstofu sína ýmist í gegnum síma, sms eða með tölvupósti.

En líkt og fyrr segir voru það alls um 83% þátttakanda sem sögðu að þeir myndu fylgjast reglulega með tölvupóst sínum, þó ekki væri nema í gegnum farsíma eða Blackberry.

Þegar hefur verið greint frá því í fjölmiðlum að nokkur þúsund manns úr fjármálageiranum munu að öllum líkindum missa vinnuna á næstu misserum en talið er að fjármálafyrirtæki þurfi að framkvæma hópuppsagnir vegna þeirrar lausafjár- og lánakrísu sem nú stendur.