Alan Greenspan segir að lausasfjárkrísan á fjármálamörkuðum eigi ekki að koma neinum á óvart - hún hafi verið "tifandi tímasprengja". Hann telur jafnframt að breskir húsnæðiseigendur séu berskjaldaðri heldur en þeir bandarísku gagnvart hækkandi stýrivöxtum á næstu árum, auk þess sem hann varar við því að verðbólga muni tvöfaldast á Bretlandi.

Á næstu misserum mun breski húsnæðismarkaðurinn ganga í gegnum "sársaukafulla leiðréttingu", að mati Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Í viðtali við breska dagblaðið The Daily Telegraph varar Greenspan við því að erfiðir tímar séu framundan fyrir húsnæðiseigendur þar í landi sökum fyrirsjáanlegra stýrivaxtahækkana Englandsbanka. Að sögn Greenspan er ekki ósennilegt að stýrivextir þurfi að fara upp í tveggja stafa tölu á næstu árum - þeir eru 5,75% um þessar mundir - til að stemma stigum við auknum verðbólguþrýstingi. Varnarorð Greenspan koma aðeins nokkrum dögum eftir að Englandsbanki neyddist til þess að veita bankanum Northern Rock, sem hefur einkum sérhæft sig í húsnæðislánum, neyðarlán til að bjarga honum frá gjaldþroti.

Þrátt fyrir að Greenspan telji að erfiðir tímar séu framundan í bresku efnahagslífi vegna lausafjárkrísunnar á alþjóðamörkuðum, þá segir hann að til lengri tíma litið - næstu tvo áratugi eða svo - þá muni breska hagkerfið verða eitt hið öflugusta á Vesturlöndum. Greenspan byggir þá skoðun sína á þeim róttæku efnahagsumbótum sem Margaret Thatcher réðst í á níunda áratugnum sem að hans mati hefur verið forsenda þess að samfelldur hagvöxtur hefur ríkt á Bretlandi undanfarin tíu ár. Seðlabankastjórinn fyrrverandi bendir einnig á það, að ólíkt því sem stundum þekkist í Bandaríkjunum, þá séu Bretar mjög frjálslyndir gagnvart því að erlendir fjárfestar kaupi upp bresk fyrirtæki. Slíkt viðhorf hefur meðal annars gert það að verkum að breska hagkerfið er líkast til "eitt hið samkeppnishæfasta í heiminum", segir Greenspan.

Að sögn Greenspan er Bretland aftur á móti berskjaldaðra heldur en Bandaríkin gagnvart þeim afleiðingum sem hafa hlotist af vaxandi lausafjárþurrð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarnar vikur. Í því samhengi bendir hann á það að á Bretlandi hefur stærra hlutfall húsnæðiskaupenda tekið fasteignalán á breytilegum vöxtum, en slíkt gerir það að verkum að bresk heimili eru viðkvæmari fyrir stýrivaxtabreytingum heldur en þau bandarísku. Englandsbanki hefur hækkað stýrivexti fimm sinnum á síðastliðnum tólf mánuðum og um þessar mundir standa vextirnir í 5,75%. Óvissuástand á fjármálamörkuðum hefur hins vegar orðið til þess að vextir á skammtímalánum á millibankamarkaði í London hafa hækkað mikið síðustu vikur og þriggja mánaða LIBOR vextir í pundi eru nú um 125 punktum hærri en stýrivextir Englandsbanka. Í kjölfarið hafa vaxtagreiðslur hjá milljónum heimila á Bretlandi hækkað sem um því nemur.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.