Verslanir í Bretlandi buðu meiri afslætti í dag en áður hafa þekkst á annan í jólum. Verslanir hafa lækkað verð um allt að 90% til að reyna að lifa af lánsfjárkreppuna, að því er segir í frétt Telegraph. Ernst & Young spáði 56,7% afslætti á útsölunum nú eftir jólin, en í fyrra voru afslættirnir 52,6%. Talsmaður Ernst & Yong segir að ólíklegt sé a neytendur eigi eftir að sjá svo lágt vöruverð í langan tíma.

„Þetta var bilun“

Ásókn í afsláttarvörurnar var mikil og dæmi er tekið um að fólk hafi byrjað að safnast fyrir utan Selfridges klukkan þrjú í nótt til að nýta sér 50% afslátt á merkjavörum á borð við Gucci, Louis Vuitton og Prada. Þegar verslunin opnaði klukkan níu í morgun, þremur tímum fyrr en til stóð, streymdu þúsundir inn og öryggisverðir áttu fullt í fangi með að hafa hemil á viðskiptavinunum.

„Þetta var bilun þegar fólkið kom inn í verslunina. Ég hef aldrei séð annað eins,“ sagði talsmaður verslunarinnar af þessu tilefni við Telegraph.

Debenhams lækkaði verð um allt að 70% opnaði klukkan sjö í morgun. Talsmaður Debenhams segir að fyrir framan verslun fyrirtækisins við Oxford Street hafi verið um 500 manna biðröð frá því um klukkan sex.