Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands tilkynnti í morgun að stjórnvöld þar í landi hyggist tryggja inneignir viðskiptavina Icesave reikningana en Icesave er sem kunnugt er í eigu Landsbankans.

Darling sagði í samtali við BBC að íslensk stjórnvöld myndu ekki tryggja innistæður viðskiptavinanna en sem kunnugt er hefur Fjármálaeftirlitið tekið yfir Landsbankann.

„Íslensk stjórnvöld, hvort sem þið trúið því eða ekki, sögðu við mig í gær að þau muni ekki standa við skuldbindingar hér,“ sagði Darling við fjölmiðla og bætti því að svo virðist sem íslenskir tryggingasjóðir hafi ekkert fjármagn til að greiða bæturnar.

„En ég hef ákveðið, undir þessum sérstöku aðstæðum, að við munum standa á bakvið viðskiptavini þannig að þeir fái fjármagn sitt til baka.“

Þá hefur BBC eftir Gordon Brown, forsætisráðherra að bresk stjórnvöld muni kæra íslensk stjórnvöld fyrir að standa ekki við skuldbindingar sínar.

Samkvæmt fréttavef BBC eru viðskiptavinir Icesave um 300 þúsund.

„Við munum tryggja að viðskiptavinir munu ekki tapa neinum peningum vegna lokunar Icesave,“ hefur BBC eftir talsmanni breska fjármálaráðuneytisins.

Þá hafa bresk yfirvöld fryst allar eignir Landsbankans í Bretlandi þangað til annað kemur í ljós eins og það er orðað í frétt BBC.