Svo kann að fara að Bretar fari á næstunni í gegnum „snjóflóð uppsagna“ eins og breska blaðið Telegraph greinir frá í dag í kjölfar þess að „staðreyndir efnahagsins“ mæti vinnumarkaði eins og viðmælandi blaðsins segir.

John Philpott, hjá Chartered Institute of Personnel and Development í Bretlandi segir við blaðið í dag að vinnumarkaður hefði náð hámarki og fjöldauppsagnir gætu orðið miklar og riðið hratt yfir í kjölfar hagræðingar fyrirtækja og minnkandi hagnaðar.

„Ég hef ekki trú á að vinnumarkaður geti barist gegn náttúrulögmálum,“ segir Philpott. „Það væri kraftaverki líkast ef ekki fer að hægja á þeim markaði eins og öðrum. Við höfum að mínu mati náð hámarki og það má búast við auknu atvinnuleysi.“

Atvinnuleysi er nú 5,2% í Bretlandi og hefur ekki verið lægra í um áratug að sögn blaðsins.

Philpott segir að aðstæðunum megi líkja við snjóhengju sem er við það að falla. „Það er bara spurning hvað nákvæmlega mun koma flóðinu af stað,“ segir Philpott og bætir því við að fasteignamarkaðurinn muni koma „flóðinu“ af stað.

Hann segir að atvinnurekendur hafi á síðustu árum lengt vinnudaga og haldið launahækkunum í skefjum til að uppfylla kröfur um hagræðingu í stað þess að segja upp fólki smátt og smátt. „Með því er búið að breiða hvítum dúk yfir markaðinn sem rifnar við minnsta átak,“ segir Philpott.