Frjálslyndi demókrataflokkurinn í Bretlandi hefur nú snúið frá einu helsta baráttumála sínu síðustu ára, að tekin verði upp evra í Bretlandi.

Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata og fyrrverandi þingmaður Evrópuþingsins sagði í samtali við breska fjölmiðla í gær að upptaka evru í Bretlandi vær ekki lengur eitt af helstu baráttumálum flokksins.

Breskir fjölmiðlar á borð við The Independent, Daily Telepgrap, The Guardian og BBC segja ákvörðun flokksins koma á óvart þar sem upptaka evru í Bretlandi hafi verið eitt af helstu baráttumálum flokksins síðustu ára.

The Independent segir flokkinn hafa barist með miklum áhuga fyrir upptöku evru síðustu ár svo dæmi sé tekið.

Clegg sagði í samtali við The Independent að umræðan um upptöku evru hefði verið „geld“ síðustu árin og ljóst væri að flokkurinn sæi ekki fram á að koma þessu stefnumáli sínu í verk á næstu árum.

Í ræðu á flokksþingi Frjálslyndra demókrata um helgina hvatti Clegg flokksmenn sína til að vera „trúfastir Evrópu“ en að innanlandsmál, til að mynda skattar og umhverfismál væru nú efst á forgangslista flokksins.

„Sannleikurinn er sá að málið er langt utan allrar umræðu í breskum stjórnmálum í dag,“ sagði Clegg í samtali við The Independent.

„Það er engin tilgangur í að eyða meiri tíma í þetta mál.“

Efast um stöðu Clegg

Nick Clegg tók við formennsku í flokknum síðastliðið vor og segja viðmælendur bæði The Independent og The Guardian að hann sé enn að fóta sig í leiðtogahlutverkinu. Ákvörðun leiðtoga flokksins vakti nokkra reiði margra flokksmeðlima sem hafa talað fyrir auknu samstarfi við Evrópusambandið, þar á meðal myntsamstarfi og upptöku evru.

Clegg sagði í viðtali við BBC fyrir helgina að kjósendur í Bretlandi væru enn að kynnast sér og hann myndi nota næstu misseri til að kynna bæði sig og flokkinn.

„Clegg náði að stimpla sig ágætlega inn um helgina,“ sagði einn viðmælanda BBC í dag en bætti við; „En það er spurning hversu mikið hann getur snúið flokknum frá fyrri stefnumálum.“