Nýjar tölur frá OECD leiða í ljós að fjöldi ferðmanna sem heimsækja Bretland fer nú hríðlækkandi. Ferðamönnum hefur fækkað um 2% á ári síðan 1998 og er þessi samdráttur í ferðmannaiðnaðinum meiri en í nokkru öðru Evrópulandi. Árið 1998 komu 16,3 milljónir ferðamanna til Bretlands en fimm árum seinna árið 2003 hafði fjöldi ferðmanna fallið niður í 14,4 milljónir.

Ferðamálasérfræðingar telja að ýmsar ástæður séu fyrir því að ferðamenn ákveði nú í auknum mæli að sniðganga Bretland. Breska pundið hefur verið sögulega sterkt um langa hríð og einnig greip um sig hræðsla við að ferðast til bæði Bretlands og Bandaríkjanna eftir hryðuverkárásirnar á New York árið 2001. Einnig settu bráðalungnabólga (e. SARS) og aðrir sjúkdómar strik í reikninginn fyrir breska ferðmannaiðnaðinn.

Samkvæmt tölum OECD hefur Kína hinsvegar sótt í sig veðrið í ferðamannaiðnaðinum og fjöldi ferðamanna sem sækjast eftir austurlenskum töfrum hefur vaxið um 9% síðan árið 1998. Nýja Sjáland kemst þó nálægt Kína í vinsældum enda hafa kvikmyndirnar um Hringadrottinn stóraukið ferðmannastraum til landsins. Samkvæmt úttektinni hafa vinsældir Austur Evrópuríkja einnig aukist mikið meðal ferðamanna.

Ísland kemst í hóp þeirra landa þar sem ferðamannastraumurinn hefur aukist um meira en 6% á tímabilinu 1998 til 2003 ásamt Nýja Sjálandi, Kína, Tyrklandi. Japan og Slóvakíu.