Bresk stjórnvöld hafa í hyggju að setja tugi milljarða punda inn í nokkrar af stærstu fjármálastofnunum landsins. Áformin ganga út á að ríkið kaupi forgangsréttarhluti í Abbey, Barclays, HBOS, HSBC, Lloyds TSB, Nationwide Building Society, Royal Bank of Scotland og Standard Chartered.

Innspýting stjórnvalda gæti numið allt að 50 milljörðum punda, að því er fram kemur í WSJ. Þar er ennfremur haft eftir fjármálaráðuneyti Bretlands að Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, muni útvega bönkunum að minnsta kosti 200 milljarða punda af lausafé.