Máli bresku úrvalsdeildarinnar í  knattspyrnu gegn kráareigandanum Karen Murphy verður nú vísað til Evrópudómsstólsins í kjölfar þess að hæstiréttur Bretlands vísaði áfrýjun Murphy frá en hún var dæmd sek í undirrétti.

Murphy var kærð fyrir að nota erlendan gervihnött til að sýna leiki úr bresku úrvalsdeildinni á krá sinni. Hún notaði gervihnött frá gríska dreifingafyrirtækinu Nova sem rukkaði hana all 800 Sterlingspund á ári en BSkyB hefur einkarétt á dreifingu bresku úrvalsdeildarinnar á Bretland og rukkar fyrir það um 6 þúsund pund á ári.

Málsvörn Murphy var að vegna innra markaðssvæðis Evrópu væri henni heimilt að kaupa dreifinguna annars staðar frá en Bretlandi. Lögfræðingur Murphy segir að kaup á dreifingu utan Bretlands, en þó innan EES svæðisins falli undir viðskipti á vörum og sé því með öllu heimilaður.

Evrópudómsstóllinn mun nú þurfa að úrskurða um það.

Breska úrvalsdeildin sendi frá sér tilkynningu í kjölfarið og hvatti aðra sýningaraðilar til að líta ekki svo á að notkun erlendra gervihnatta væri þar með lögleg og ítrekaði að sambandið myndi halda málaferlunum áfram „alla leið.“