Verslanir í Bretlandi sem selja vörur í dýrari kantinum segjast hafa orðið varar við að viðskiptavinir þeirra séu að verða kröfuharðari og vandi valið betur áður en þeir ákveða hvað þeir kaupi. Verðið virðist skipta minna máli en gæðin. Samkvæmt frétt á vef retail- week.com eru það kaupendur með betri fjárráð en almennt gerist sem keyra verslunina áfram um þessar mundir og helsta ástæðan fyrir vexti hennar á síðasta ári.

Mælingar á verslunarmunstri kaupenda sýnir að á síðasta ári jókst sala á svo nefndum lúxusvarningi um 11,3% en sala á öðrum og ódýrari vörum um 2,7%. Heildar söluaukning á síðast ári nam 3,5% miðað við árið 2006 en reiknað er með að aukningin verði 4,1% á þessu ári.

Af tíu stærstu verslunarmiðstöðvum í Bretlandi er Harrods sú verslum sem skilaði mestri veltuaukningu á fermetra á síðasta ári en aukningin hjá Harrods nam um 30 sterlingspundum á fermetra sem er næstum tvöfalt meira en hjá Selfridges sem var í öðru sæti með 16 pund á fermetra.

Yfirburðir Harrods eru merkilegri fyrir þær sakir að verslunin náði þessari aukningu fram með því að bæta nýtingu þess húsnæðis sem verslunin átti fyrir en ekki með því að auka við sig verslunarrými.