Samkvæmt bráðabirgðamati hafa nýhafnar útsölur í Bretlandi, sem eru venja eftir jólaverslunina, laðað til sín fleiri kaupendur nú í ár en í fyrra. BBC greinir frá þessu.

Sérfræðingar þar í landi vara þó við að árið 2009 verði erfitt fyrir smásöluverslanir og að aukin sala núna komi aðallega til vegna mikils afsláttar, eða allt upp í 90% á mörgum stöðum. Verslunarkeðjurnar John Lewis og Next eru engin undantekning í þessum efnum og talsmaður John Lewis segir að sala verslunarkeðjunnar hafi verið 7% meiri nú á laugardaginn sl., samanborið við sama dag árið 2007, en salan nam 21,3 milljónum punda.

Sérfræðingar í breskri verslun segja desember þó hafa verið dræman mánuð á heildina litið.

Rannsókn sem PricewaterhouseCoopers stóð fyrir gefur til kynna að 82% af betri verslunum í Bretlandi hafi verið með vörur á útsölu eða einhvers konar afslætti á jólavertíðinni.

Richard Dodd, talsmaður samtaka verslunar í Bretlandi, segir að árið 2009 muni neytendur halda mjög að sér höndum og að verslanir muni þurfa að bjóða mikla afslætti og önnur gylliboð til að selja vöruna sína; sem sé erfitt fyrir verslunareigendur.