Bresk stjórnvöld hafa í dag verið að leggja lokahönd á nýjan björgunarpakka fyrir banka landsins sem ætlað er að eyða óvissu um framtíðartap og örva lánveitingar til neytenda og fyrirtækja. Þetta kemur fram í FT.

Gert er ráð fyrir að björgunarpakkinn feli í sér ríkistryggingar sem muni setja þak á mögulegt tap banka vegna áhættusamra útlána sem þeir hafa á efnahagsreikningi sínum. Tilgangurinn með þessu er að hvetja til ferkari útlána.

Gordon Brown forsætisráðherra er staddur í Egyptalandi vegna átakanna á Gaza. Hann sagði við fréttamenn þar að viðfangsefnið væri að koma útlánum af stað á ný.

Pakkinn kynntur á morgun

Pakkinn verður kynntur á morgun og með honum er viðurkennt, segir FT, að 400 milljarða punda aðstoð sem samþykkt var í október síðastliðnum hafi ekki nægt til að koma í veg fyrir að breskt hagkerfi lenti í verulegri niðursveiflu. Sú aðstoð hafi hins vegar dugað til að koma í veg fyrir algert hrun á trausti í garð bankakerfisins.