Bretland, Holland, Malta og sex aðrar Evrópuþjóðir hafa sent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bréf þar sem áformum um kynjakvóta í stjórnum evrópskra fyrirtækja er mótmælt. Áformin gera ráð fyrir að að minnsta kosti 40% stjórnarmanna í skráðum fyrirtækjum verði konur.

Financial Times greinir frá þróun mála í dag en blaðið greindi fyrst fjölmiðla frá áætlunum um kynjakvóta fyrir skömmu. Í umfjöllun FT kemur fram að aðgerðir ríkjanna níu gætu leitt til þess að málið verði látið niður falla, þar sem samanlagður atkvæðafjöldi þeirra dugir til þess að málið komist ekki í gegn.

Hugmyndir um kynjakvóta eru umdeildar meðal ríkja Evrópusambandsins. Talsmenn Svíþjóðar og Þýskalands hafa báðir tilkynnt að ríkin muni ekki samþykkja að slíkur kvóti yrði settur á öll ríki sambandsins. Ríkin tvö voru þó ekki meðal þeirra níu sem skrifuðu undir bréf til framkvæmdastjórnar sambandsins.