Smásala í Bretlandi jókst óvænt í maímánuði en samkvæmt frétt Telegraph er það helst aukin sala á sumarfatnaði og matvörum sem orsakar hækkunina.

Smásalan jókst um 3,5% milli mánaða og er að mesta hækkun á einum mánuði síðan byrjað var að taka saman tölur um smásölu eða í janúar 1986 samkvæmt tölum frá Hagstofu Bretlands (Office for National Statistics).

Þegar hafði verið gert ráð fyrir samdrætti í smásölu upp á 0,1 – 0,4% að mati greiningaraðila að sögn Telegraph.

Sala á matvöru jókst um 3,3% á meðan sala á fatnaði og skóm hækkaði um 9,2% milli mánaða. Blaðið greinir frá því á vef sínum að smásöluaðilar hefi ekki lækkað verð og því megi ekki rekja aukna neyslu til tilboða.

Þessar tölur koma sem fyrr segir nokkuð á óvart en greiningaraðilar höfðu þegar gert ráð fyrir að almenningur myndi herða ólarnar og draga úr neyslu miðað við það ástand sem nú ríkir á mörkuðum samkvæmt frétt Telegraph.

Viðmælendur blaðsins eru þó sammála um það nú að þessar tölur auki þrýsting á Englandsbanka um að hækka stýrivexti en hætt er við að verðbólga kunni að hækka enn frekar en hún er ný þegar 3% á meðan verðbólgumarkmið bankans er 2%.