Banni á skortssölu 34 breskra fjármálafyrirtækja, sem sett var á um miðjan september síðastliðinn, hefur nú verið aflétt.

Bannið var sem fyrr sett á af breska fjármálaeftirlitinu um miðjan september síðastliðinn en sá sem stundar skortsölu getur hagnast verulega af lækkandi gengi hlutabréfa og taldi fjármálaeftirlitið að slík hegðun væri meðal annars valdur að lækkandi gengi HBOS bankans.

Skortssala hefur hingað til ekki verið bönnuð en um leið og reynt er að hafa áhrif á gengi félaga með óeðlilegum hætti eru menn farnir að brjóta lögin.

Samkvæmt fréttaskýringu BBC var bannið við skortsölu sett á til að reyna að koma í veg fyrir frekari lækkun hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum.

Þá segir BBC að aflétting bannsins muni hafa þau áhrif á að tiltrú fjárfesta aukist á bankakerfið í Bretlandi.

Bannið var nokkuð umdeilt þegar það var sett á í haust. Margir stjórnmálamenn höfðu kallað eftir skortsölubanni á meðan markaðsmenn sögðu það bæði óþarft og villandi.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni í Lundúnum kom fram að bann við skortsölu myndi minnka trúverðugleika fjármálafyrirtækja, skekkja gengi þeirra og eins skekkja markaðinn í heild.

Í tilkynningu frá breska fjármálaeftirlitinu í dag kemur fram að bannið verður sett á á ný ef ástæða þykir til.