Fjárfestar hafa aldrei haft jafn miklar efasemdir um getu Englandsbanka til að vinna gegn vaxandi verðbólgu frá því að bankanum var veitt aukið sjálfstæði árið 1997.

Fram kemur í frétt Financial Times að á undanförnum mánuðum hafi ávöxtunarkrafan á annars vegar vísitölutengd ríkisskuldabréf og hins vegar hefðbundin Gullbrydduð ríkisskuldabréf færst í sundur. Þessi þróun sýnir að fjárfestar á skuldabréfamarkaði eru nú reiðubúnir að greiða mun hærra verð fyrir tryggingu gegn verðbólgu.

Sérfræðingar segja að þetta gefi til kynna að peningastefna Englandsbanka skorti trúverðugleika um þessar mundir.

Markaðurinn með ríkisskuldabréf til 20 ára væntir að meðaltali 3,76% verðbólgu á neysluvörum, samkvæmt gögnum frá Englandsbanka, borið saman við 3,47% þegar Englandsbanki hlaut meira sjálfstæði fyrir ellefu árum. Til samanburðar mældust 20 ára verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaðnum fyrir tveimur árum aðeins 2,85%.

Ed Balls, fyrrum ráðgjafi fjármálaráðherra, sagði eitt sinn að verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði væru „mikilvægasta“ prófraunin fyrir trúverðugleika og traust á peningastefnunni.

Balls er ekki einn um þá skoðun. Financial Times hefur eftir Paul Dales, hagfræðingi hjá hagrannsóknarfyrirtækinu Capital Economics, að sú staðreynd að ávöxtunarkrafan á vísitölutengd ríkisskuldabréf og Gullbrydduð ríkisskuldabréf hafi færst í sundur, geti verið „fyrsta vísbendingin um að markaðurinn sé farinn að missa trúna á getu breskra peningamálayfirvalda til að tryggja efnahagsumhverfi sem einkennist af lágri og stöðugri verðbólgu“.

Kannanir sýna vaxandi verðbólguvæntingar almennings, auk yfirvofandi verðlagshækkana fyrirtækja. Af meðal annars þessum sökum segja hagfræðingar að það sé aukin hætta á því að há verðbólga muni festa rætur í breska hagkerfinu. Verðbólguvæntingar almennings hafa ekki mælst hærri í níu ár.