Smásala í Bretlandi jókst óvænt um 0,7% milli mánaða í janúar og um 3,6% milli ára samkvæmt tölum frá bresku hagstofunni en áður hafði verið gert ráð fyrir 0,1% samdrætti milli mánaða sem hefði verið i takt við síðustu mánuði.

Mestu munaði um aukna sölu á fatnaði og skóm þar sem salan jókst um 6,1%

Á hefur sala síðustu þrjá mánuði, þ.e. nóvember, desember og janúar aukist um 3,2% milli ára en að sögn BBC hvetja flestir greiningaraðilar til hóflegrar bjartsýni á aukna smásölu þar sem ljóst sé að jólin annars vegar og janúarútsölur hins vegar séu meginorsök aukinnar smásölu á tímabilinu.

Þannig muni hún dragast saman þegar fjöldi atvinnulausra fer að aukast og einkaneysla yfir höfuð dragast saman.

BBC hefur eftir Vicky Redwood, hagfæðing hjá Capital Economics að nú þegar útsölum sé lokið muni lækkandi fasteignaverð, aukið atvinnuleysi, ótti um atvinnuleysi verða til þess að fólk haldi að sér höndum og spari ráðstöfunarfé sitt.

Þá segir hún reikna með að 3,5% samdráttur verði á einkaneyslu á árinu.