Samkvæmt tölum bresku hagstofunnar jókst smásala óvænt í Bretlandi í nóvember eða um 0,3% milli mánaða. Þá jókst smásala um 1,5% milli ára.

Samkvæmt vef breska blaðsins The Daily Telegraph munar þar mestu um miklar útsölur og önnur tilboð sem virðast hafa hvatt annars hikandi neytendur til verslunar.

Tölur bresku hagstofunnar eru þó ekki hafnar yfir gagnrýni en Telegraph greinir frá því að tölur stofnunarinnar hafi oft reynst rangar áður.

„Það má vel vera að fólk hafi keypt jólagjafirnar snemma og nýtt tilboðin,“ segir James Knightley, hagfræðingur hjá ING í samtali við Telegraph.

„Þessar tölur eru þó ekki í takt við neitt af því sem við höfum séð hingað til, hvorki tölur um væntingavísitölu né gögn frá samtökum smásala [BRC].“

Þá segir Stephen Robertson, framkvæmdastjóri BRC að erfitt sé að greina og útskýra aukna smásölu í nóvember.

Hann segir þó að vegna lækkandi stýrivaxta og söluskatts kunni neytendur að hafa nýtt tækifærið til að versla auk þess sem fyrrnefnd tilboð kunna að hafa laðað að neytendur.

Þá segir hann að mögulega séu neytendur að dreifa jólakaupunum milli mánaða.

„Ef það er málið held ég að verslunareigendum sé létt yfir því að neytendur skuli dreifa innkaupum frekar en að hætta alveg við þau eins og sumir höfðu óttast,“ sagði Robertson.