Englandsbanki lækkaði í dag stýrivexti sína um 50 stig, úr 2% í 1,5%.

Þannig hafa stýrivextir aldrei verið lægri í 315 ára sögu bankans, sem stofnaður var árið 1694, en stýrivaxtalækkuninni í dag er ætlað að koma hjólum hagkerfisins í gang á ný.

Rétt er að taka fram að stýrivextir Englandsbanka voru 5% í október síðastliðnum og hafa lækkað fjórum sinnum síðan þá.

Í rökstuðningi Englandsbanka kemur fram að samdráttur í efnahagslífinu hafi verið nokkur á fjórða ársfjórðungi 2008 og búast má við frekar samdrætti á fyrstu mánuðum þessa árs.

Margir telja þó að stýrivaxtalækkun bankans sé ekki nóg til að koma hagkerfinu í gang á ný og eins og greint var frá í morgun íhugar fjármálaráðuneyti Bretlands að auka peningamagn í umferð. (sjá tengda frétt hér að neðan.)