Talið er að um 30 þúsund manns í fjármálageiranum í Bretlandi eigi eftir að missa störf sín á næstu sex mánuðum.

Frá þessu er greint á vef breska blaðsins The Daily Telegraph en samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja á Bretlandi gerðu nýlega könnun meðal stjórnenda og starfsmanna þar sem farið var yfir starfshorfur næstu 6 – 18 mánuði.

Um milljón manns starfa í fjármálageiranum á Bretlandi eða hjá breskum fyrirtækjum (þá eru tryggingafélög meðtalin) þannig að þarna er um að ræða 3% starfsmanna en á síðasta ári misstu um 40 þúsund manns vinnuna í fjármálageiranum.

Að sögn Telegraph eru enn mörg félög, af öllum stærðum, í miklum vandræðum og það á eftir að koma í ljós á næstu mánuðum hvort þau geti starfað áfram eða ekki. Hvað sem því líður er ljóst að fjármála- og tryggingafélög munu þurfa að segja upp starfsmönnum til að ná niður rekstrarkostnaði.

En þrátt fyrir neikvæðar horfur í atvinnumálum starfsmanna fjármálageirans eru stjórnendur banka jákvæðari en áður á afkomuhorfur fyrir árið. Ef fjármálafyrirtækjum tekst að ná niður kostnaði er talið líklegt að hagnaður þeirra verði mun skárri en á síðasta ári en alls óvíst hvort þau komi til með að fjölga starfsfólki strax.