Að minnsta kosti 10 þúsund störf í fjármálageiranum kunna að „glatast“ eins og það er orðað á fréttavef BBC en þar er vísað í nýja úttekt samtaka iðnaðarins í Bretlandi, Confederation of British Industry (CBI) um málið.

Samtökin gera reglulegar kannanir á meðal hinna ýmsu starfsgreina og hafa fylgst náið með fjármálageiranum undanfarið segir í fréttinni.

„Ástandið er mjög alvarlegt núna,“ segir Ian McCafferty, yfirhagfræðingur CBI í samtali við BBC. „Það er okkar tilfinning að þetta muni vara eitthvað fram á árið.“

Samkvæmt úttekt samtakanna mun breska fjármálalífið standa af sér þá storma sem nú blása á fjármálamörkuðum en til þess þurfi líka að færa fórnir sem þá helst feli í sér niðurskurði á starfsmönnum fjármálafyrirtækja.

Úttekt CBI nær einnig til tryggingafélaga, lífeyrissjóða og starfssemi tengdri fjármálalífinu og segir að hagur fyrirtækja í fyrrnefndum greinum hefði ekki batnað síðustu sex mánuði.