Verðmæti útflutnings á skosku viskíi sló öll met í fyrra og nam verðmæti hans 2,8 milljörðum sterlingspunda.

Samkvæmt upplýsingum Samtaka skoskra viskíframleiðenda öfluðu þeir 90 punda í gjaldeyristekjur fyrir Bretland á hverri sekúndu sem leið árið 2007. Alls voru fluttar út 1.123 milljónir flaskna af viskíi á árinu.

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, að mikil aukning hafi orðið á útflutningi til Indlands og ríkja Evrópusambandsins (ESB).

Verðmæti útflutnings til Indlands jókst um 33% á meðan vöxturinn var 27% til ESBríkjanna. BBC hefur eftir Paul Walsh, formanni hagsmunasamtaka viskíframleiðenda, að afkoma iðnaðarins sýni hversu mikilvægur viskíútflutningur er fyrir hagkerfið og að frammistaðan sé sérstaklega athyglisverð í ljósi erfiðra aðstæðna á sumum mörkuðum á síðari hluta ársins.

BBC hefur jafnframt eftir Angus Robertson, sem situr á skoska þinginu, að það skjóti skökku við, á meðan áfengisneytendur um heim allan styðji við bakið á skoskum viskíframleiðendum, að ríkisstjórn Verkamannaflokksins grafi undan þeim með hækkunum á sköttum á framleiðslu flaggskips skosks útflutningsiðnaðar.

10 stærstu útflutningsmarkaðir skosks viskís

  1. Bandaríkin 419,2 m.£
  2. Spánn 307,5 m.£
  3. Frakkland 294,2 m.£
  4. Singapúr 158,1 m.£
  5. Suður-Kórea 139,5 m.£
  6. Grikkland 103,5 m.£
  7. Þýskaland 96,3 m.£
  8. Suður-Afríka 90,9 m.£
  9. Taívan 81,8 m.£
  10. Portúgal 48,3 m.£