Verslunareigendur í Bretlandi hafa mótmælt harðlega áætlunum ríkisstjórnarinnar þar í landi um hækkun virðisaukaskatts og segja hann valda hækkun vöruverðs.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Daily Telegraph í dag en ríkisstjórnin ákvað í lok síðasta árs að lækka virðisaukaskatt um 2,5 prósentustig, úr 17,5% í 15%. Þá var tilkynnt að um tímabundna lækkun væri að ræða en ekki var gefið upp hversu lengi hún myndi standa.

Nú hafa fjölmiðlar í Bretlandi haft afspurn af því að virðisaukaskatturinn hækki aftur við næstu áramót. Þessu hafa verslunareigendur mótmælt harðlega. Þeir gagnrýna ekki eingöngu hækkunina heldur einnig tímasetninguna sem þeir segja mjög óheppilega þar sem útsölur hefjast í byrjun janúar.

„Það er hagur allra að skatturinn verði áfram 15%,“ segir viðmælandi Telegraph.

„Það er hagur almennings að geta verslað föt og aðra þjónustu á hæfilegu verði og það er sömuleiðis hagur verslunareigenda að fá til sín aukin viðskipti. Ef skatturinn hækkar um næstu áramót tapa allir, þ.m.t. ríkið því allt bendir til þess að verslunin verði minni og því muni skatttekjur ríkisins verða minni.“

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretland er ósammála verslunareigendum. Telegraph greinir frá því að hann hafi á fundi með viðskiptamönnum sagt að það væri engin ástæða til að halda virðisaukaskattinum áfram í 15%, 13 mánuðir væru nægur tími, þar sem ríkið hefði samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins orðið af um 1 milljarði Sterlingspunda vegna lækkunarinnar.