Nærri því eitt af hverju fjórum heimilum í Bretlandi hefur nú annað hvort sagt upp eða minnkað hjá sér tryggingar í þeirri von að spara nokkur pund.

Samkvæmt samtökum tryggingafélaga í Bretlandi hafa nú um 22% viðskiptavina félaganna ýmist sagt upp tryggingum eða skipt um tryggingafélag og þá iðulega fært sig til nýrri og ódýrari félaga. Þá hafa um 17% allra viðskiptavina tryggingafélaganna sagt upp fasteignatryggingum sínum.

Í Skotlandi er þessi tala mun stærri. Þar hafa um 28% viðskiptavina tryggingafélaganna ýmist sagt upp tryggingum eða fært sig í ódýrari tryggingar og um 21% viðskiptavina hefur sagt upp fasteignatryggingum sínum.

Þá hafa um 13% allra viðskiptavina tryggingafélaga á Bretlandi sagt upp líf- og sjúkdómatryggingum sínum og sparnaður er í flestum tilfellum gefinn upp sem ástæða.

Til að bæta við þetta allt saman greinir breska blaðið The Daily Telegraph frá því í dag að samkvæmt skoðanakönnunum íhugar nú 21% allra íbúa á Bretlandi að draga úr og jafnvel hætta reglulegum sparnaði. Um 45% landsmanna segist vilja spara meira en hafi ekki efni á því.