*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 11. júní 2017 17:02

Bretta upp ermarnar

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir Costco vera „alvöru samkeppni“. Hann telur kaup Haga á Olís skapa stór tækifæri í innkaupum og verslunarrekstri.

Snorri Páll Gunnarsson
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
Eva Björk Ægisdóttir

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir samkeppnina á eldsneytismarkaðnum vera harða. Olís mun keppa við Costco um þjónustu í stóru samhengi. Jón Ólafur telur að kaup Haga á fé­laginu skapi stór tækifæri í innkaupum og verslunarrekstri.

Hagar keyptu rekstur Olís undir lok apríl síðastliðinn. Hvernig leggst það í þig?

„Hagar eru fremsta smásölufyrirtæki landsins. Félag eins og Olís, sem verður 90 ára í ár, verður að þróast með einhverjum hætti inn í næstu framtíð. Það er mikilvægt að búa við tryggt eignarhald og við sjáum stór tækifæri í því að komast inn í svo stóra fjölskyldu sem Hagar eru. Hagar eru með góða innviði, gott innkaupaskipulag og eru sérfræðingar í meðhöndlun vara. Þetta styrkir okkur í innkaupum og það fæðist mikill styrkur í okkar vöruúrvali í gegnum kerfið hjá Högum. Við sjáum því mikil vaxtartækifæri í verslunarrekstri á eldsneytisstöðvum Olís. Þannig að ég tel að Olís muni njóta góðs af sterkri stöðu Haga í rekstri, sem verður til þess að neytendaábatinn verði enn meiri fyrir okkar viðskiptavini. Ég geri ráð fyrir því að Olís verði áfram sterkt, sjálfstætt félag með sjálfsmynd á íslenskum markaði.“

Costco er alvöru samkeppni

Hvernig er samkeppnin á eldsneytismarkaði?

„Hún er gríðarlega hörð. Það eru endalaus tilboð í gangi, enda er það ein besta leiðin til að vekja á sér athygli fyrir okkur sem aðra, en við búum í afsláttardrifnu samfélagi. Þess vegna höfum við lagt okkur fram um að vera með tilboð sem eru áhugavekjandi. Við höfum verið að sækja í okkur veðrið á undanförnum árum vegna þessa. Hópurinn sem nýtir kjörin hjá okkur er alltaf að stækka og okkur sýnist boð okkar eiga góðan hljómgrunn, enda eru það tilboðin sem neytandinn ber saman. Neytandinn er skynsamur og finnur það sem er best fyrir sig hverju sinni.

Samkeppniseftirlitið birti frumniðurstöður markaðsrannsóknar á eldsneytismarkaði í nóvemberlok 2015 þar sem fram kom að samkeppnin á markaðnum væri takmörkuð og álagningin óþarflega há. Við settum fram okkar athugasemdir á sínum tíma og í dag get ég ekki séð annað en að markaðurinn tikki í öll boxin sem þar komu fram. Í skýrslunni var íslenski markaðurinn borinn saman við þann breska, en þar er harðasta samkeppnin í allri Evrópu. Samanburðurinn er þó ekki eðlilegur, því Bretland er miklu fjölmennara og þéttbýlla en Ísland og með allt aðra innviði. Þá hefur verið kvartað undan því að það sé ekki virkur heildsölumarkaður hér á landi. Við höfum mótmælt því. Við höfum átt viðræð­ur við þá sem hafa viljað fara inn á þennan markað, eins og Festi, og að mínu viti er þeim viðræðum ekki lokið. Samningur Costco við eitt af olíufélögunum hér á landi undirstrikar það að það sé til stað­ ar virkur heildsölumarkaður. Síðan hefur verið talað um það að ein aðgangshindrun sé birgðakerfið. En það er nú bara þannig að olíufélögin hafa með skynsömum hætti verið að kaupa þjónustu hvert af öðru og skilar sá ábati sér til viðskiptavina með ótvíræðum hætti.

Þannig að við höfum sagt við Samkeppniseftirlitið: allt sem þið hafið verið að benda á hefur í rauninni verið í gangi með virkum hætti. Við sjáum ekki neina ástæðu til einhverra sérstakra inngripa af hendi Samkeppniseftirlitsins inn á þennan markað.“

Hvernig metur þú innkomu Costco í íslenskt atvinnulíf?

„Mér sýnist að allir séu meira eða minna búnir að reima á sig hlaupaskóna. Ég held að innkoma Costco hafi bara jákvæð og góð áhrif á alla samkeppni á smásölumarkaði. Costco er alvöru samkeppni og býr við allt annan styrk en önnur fyrirtæki á markaðnum hér á landi í innkaupum, fjármögnun og fleiru enda næststærsta smásölufyrirtæki í heimi sem fer nú ekki mikið fyrir í fjölmiðlum sem hafa hamast við að kynna þetta fyrirtæki hér á landi endurgjaldslaust. Hins vegar verður að hafa í huga að Costco er með allt annað viðskiptamódel heldur en við.

Costco er með eina verslun á höfuð­ borgarsvæðinu og eftir því sem verður séð þá ætla þeir sér ekki að hafa þær fleiri. Þeir eru með eina eldsneytisstöð þar sem þeir bjóða lægra verð en önnur olíufélög en hafa verður í huga að vildarkerfi okkar minnkar þennan mun verulega auk þess sem þjónustunet okkar nær um allt land. Þeir eru með ýmsar innfluttar vörur á góðu verði en manni sýnist einnig að þarna séu vörur sem íslenskir neytendur hafa séð áður sem koma frá innlendum framleiðendum og eru á svipuðu verði og sést í öðrum verslunum. Svo er ljóst að þetta er ekki í alfaraleið fyrir alla, á með­ an íslenskt smásöluumhverfi býr að því að vera með stórmarkaði og eldsneytisstöðvar nánast í hverju einasta hverfi.

Sú þjónusta sem við erum að bjóða upp á er þægindaþjónusta. Hún er í nærumhverfinu og við erum með landstækkandi net sem þjónustar alla landsmenn. Það má vel vera að þessi þægindaþjónusta sé aðeins dýrari vegna þess að hún er á fleiri stöðum. En neytendur velja á milli þess að hafa þessa þjónustu í nærumhverfinu á móti því að ferðast einhverja vegalengd til að ná sér í vörur og bensín.

Viðskiptamódel Olís og Costco eru því allt önnur. Við erum með allt annað þjónustuframboð og erum ekki með lokaðan klúbb fyrir okkar viðskiptavini. Við erum því ekki að keppa við Costco í verði, heldur erum við að keppa við þá um þjónustu og þjónustuupplifun. En Costco er án efa að færa ferskan vind inn í íslenskt smásöluumhverfi. Það munu örugglega allir bretta upp ermar, hagræða í rekstri, sauma að erlendum birgjum og reyna að gera betur en þeir hafa verið að gera. Við munum halda áfram að gera betur í okkar rekstri og ég er ekki í nokkrum vafa um að tengsl okkar við nýjan eiganda í framtíðinni, Haga, munu styrkja okkur enn frekar.“ 

Nánar er rætt við Jón Ólaf í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.