Breskir embættismenn hafa ráðlagt útflutningsfyrirtækjum að setja á fót starfsemi innan Evrópusambandsins til að forðast þær viðskiptahindranir sem tóku gildi um síðustu áramót vegna útgöngu eyríkisins úr sambandinu.

Þrátt fyrir að Brexit-samningurinn sem undirritaður var á elleftu stundu feli í sér tollfrjáls vöruviðskipti, hafa viðskipti milli Bretlands og meginlandsins flækst nokkuð við útgönguna. Ýmisskonar gjöld, skattar og skriffinnska hafa orðið þess valdandi að mörg bresk fyrirtæki hafa alfarið hætt útflutningi til Evrópusambandsins.

Dótturfyrirtæki innan ESB eina lausnin
Í frétt BBC um málið er tekið dæmi af ostaútflytjandanum Cheshire Cheese Company, sem seldi ost til ESB fyrir ígildi 32 milljóna króna í fyrra. Hverri 5 þúsund króna gjafaöskju sem flutt er þangað út í dag þarf nú að fylgja heilbrigðisvottorð frá dýralækni sem kostar yfir 30 þúsund krónur.

Fyrirtækið ráðfærði sig við umhverfis-, matvæla- og dreifbýlisráðuneytið, og var þá sagt að það eina í stöðunni væri að setja á fót afgreiðslumiðstöð innan ESB, og setja öskjurnar saman þar. Þetta hefur BBC eftir einum af stofnendum fyrirtækisins.

Alþjóðaviðskiptaráðuneytið hafnar því hinsvegar að slík ráðgjöf sé stefna yfirvalda, og vísar í leiðbeiningar forsætisráðuneytisins.

Cheshire Cheese var upphaflega bjartsýnt á útgönguna, íhugar nú möguleikann á að setja upp dótturfyrirtæki í Frakklandi, í stað þess að byggja vöruhús í Bretlandi fyrir hátt í 200 milljónir og ráða þangað 20-30 manns. „Í staðinn myndum við þá ráða franska starfsmenn og borga skatta til Evrópusambandsins,“ er haft eftir áðurnefndum stofnanda.