*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 12. desember 2016 12:02

Brexit er tækifæri

Nýr sendiherra Bretlands á Íslandi, Michael Nevin, segir bresku þjóðina vera að horfa út á við, ekki inn, með úrsögn úr ESB.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Michael Nevin, sem tók nýlega við sem sendiherra Bretlands á Íslandi, leggur áherslu á að þótt breska þjóðin hafi ákveðið að segja sig úr ESB þá sé það ekki merki um að hún vilji horfa meira inn á við. Þvert á móti sé um að ræða tækifæri til að auka verslun og samskipti við heiminn allan.

Erum ekki að yfirgefa Evrópu, heldur ESB

„Bretland hefur verið verslunarþjóð í hundruð ára, saga okkar byggir á því. Svo að því leytinu til er núverandi aðstaða ekkert ný fyrir okkur, þetta er okkur í blóð borið.

Margir túlka þjóðaratkvæðagreiðsluna um úrsögn úr ESB sem svo að við séum að horfa inn á við, en í raun ætti að horfa á þetta sem þveröfugt, að við séum að horfa til alls heimsins.

Við erum áfram í öryggisráði SÞ, við erum enn í NATO, enn hluti af G7 ríkjunum og við erum leiðandi í mörgum málum. Við munum áfram leiða í fríverslun, við erum alþjóðlegt samfélag með söguleg tengsl við fjölmörg lönd út um allan heim, líkt og Samveldislöndin,“ segir Nevin, en þau búa allflest við réttarkerfi byggð á breskum hefðum.

„Jafnframt höfum við líka sterk tengsl við næstu nágranna okkar eins og Frakka, enda kemur stór hluti af tungumáli okkar þaðan. Utanríkisráðherra okkar, Boris Johnson, notar oft orðalag sem mér líkar vel við, sem er að við erum að yfirgefa Evrópusambandið, en við erum ekki að yfirgefa Evrópu.“

Frelsi frá hlekkjum Evrópustofnana

„Ég mæli með að þið lítið á Brexit sem tækifæri. Þetta er tækifæri til að styrkja, breikka og dýpka okkar samstarf. Markmið okkar er að stefna að frjálsri og opinni verslun við umheiminn, líkt og Bretland hefur leitt í sögunni og vill halda áfram að leiða. Jafnvel þótt það séu ákveðin merki um að það sé gagnstætt ríkjandi þróun.“

Bretar trúi því að mati Nevins sendiherra að frjáls verslun, sem byggð sé á skýrum alþjóðlegum reglum, muni blása lífi í alþjóðahagkerfið.

„Ef okkur tekst að komast undan reglum, skriffinnsku og samningum Evrópusambandsins og losna undan hlekkjum stofnana þess, þá mun það færa okkur meira frelsi til að ná fram góðum fríverslunarsamningum. Sem dæmi þá höfum við í London sterkan fjármálageira sem gæti í framtíðinni náð enn betur til annarra landa,“ segir Nevin sem tekur það sérstaklega fram að hann sé ekki að setja fram gagnrýni á Evrópusambandið.

„Það er okkur í hag ef Evrópusambandið heldur áfram að vera sterkt afl á hinu alþjóðlega sviði, enda styður það einnig við fríverslun. Það má því ekki gera lítið úr því að Bretland og Evrópusambandið hafa starfað vel saman í gegnum árin og munu gera áfram í framtíðinni og það samstarf mun gagnast báðum vel.“

Blikur á lofti í fríverslun

Michael Nevin leggur áherslu á að fríverslun geri þjóðum og einstaklingum kleift að nýta hlutfallslega yfirburði sína og ýti undir nýsköpun en hann sér blikur á lofti.

„Það var skýrsla sem var að koma út, frá held ég Heimsviðskiptastofnuninni (WTO), sem segir að víða um heim séu auknar takmarkanir á verslun og það sé ein af ástæðunum fyrir að alheimsverslun hafi minnkað, og í raun helmingast á síðustu árum. Svo að okkar hugmyndafræði er að ef það tekst að koma á hreyfingu í átt til aukinnar fríverslunar, þá muni það auka við hagvöxt,“ segir Nevin.

„Auðvitað viljum við að bresk fyrirtæki hafi áfram sem mestan og bestan aðgang að sameiginlegum markaði Evrópska efnahagssvæðisins, og að sama skapi að evrópsk fyrirtæki hafi sem mestan og bestan aðgang að markaði Bretlands.

Breska hagkerfið er um 20% af því evrópska svo við höfum mikla sameiginlega hagsmuni. Við verðum áfram góðir nágrannar þótt við munum yfirgefa Evrópusambandið og við viljum halda áfram að vera í góðu samstarfi. Ég held það sé gott fyrir báða aðila.“

Þjóðaratkvæðið snerist um stjórn á eigin málum

Michael Nevin segir að þótt augljóst sé að fólk hafi haft ýmsar ástæður fyrir því að vilja ganga úr Evrópusambandinu þá snúist ákvörðunin fyrst og fremst um vilja þjóðarinnar til að ráða sér sjálf.

„Ef litið er á skoðanakannanir og umræðuna úr kosningabaráttunni þá virðist þetta fyrst og fremst snúast um það að fólk vildi hafa meiri stjórn á eigin lífi og framtíð, sem það fannst það geta gert með því að yfirgefa Evrópusambandið.

Fólk hafði það á tilfinningunni að með því að færa lýðræðið og ábyrgðina nær fólkinu þá hafi það meira um það að segja hvað gerist í lífi sínu og hafi meiri stjórn á því.

Það virðist sem ákveðnar áhyggjur hafi verið til staðar vegna innflutnings fólks, og þá snerist þetta fyrst og fremst um að hafa stjórn á honum,“ segir Nevin sem tekur fram að hin hliðin á málinu séu aukin tækifæri.

„Einnig virðist sem margir hafi trú á því að Bretland gæti búið við meiri grósku efnahagslega utan Evrópusambandsins. Að við gætum gert betur utan ESB og stofnana þess.

Það þýðir ekki að við séum andstæð Evrópu eða að við séum að draga okkur inn í skelina. Ég held þetta sé í raun andstæðan við það, sú tilfinning að það séu ekki jafnmiklar takmarkanir fyrir Bretland ef það sé utan ESB.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.