Greg Clark, viðskiptaráðherra Bretlands, sagði í morgun að Bretland væri opið fyrir framlengingu útgönguferlis landsins úr Evrópusambandinu til ársins 2022, til að lágmarka röskun á viðskiptum við sambandið. Financial Times greinir frá .

Michel Barnier, aðalsamningamaður sambandsins í útgönguviðræðunum, lagði í gær til að útgönguferlið yrði framlengt til allt að desember 2022, en eins og er stendur til að því verði formlega lokið fyrir árslok 2020.

Clark sagði að ef heildstæður viðskiptasamningur milli Bretlands og Evrópusambandsins lægi ekki fyrir í árslok 2020 myndi hann helst vilja framlengja ferlið, frekar en að nota hina umdeildu varaáætlun .

Sú áætlun felur í sér að Bretland yrði tímabundið áfram hluti af tollabandalagi sambandsins, þar til báðir aðilar sammæltust um að þess væri ekki lengur þörf. Þannig yrði komið í veg fyrir „hörð“ landamæri milli Írlands og Norður-Írlands, en eigi að síður þyrfti að ganga úr skugga um að vörur sem kæmu til Norður-Írlands yfir landamærin stæðust reglugerðir Evrópusambandsins.

Framlenging ferlisins fæli hinsvegar í sér óbreytt ástand á landamærum og í tollamálum. Clark ítrekaði þó að ef sú yrði niðurstaðan yrði það haft alveg á hreinu að framlengingin vari ekki lengur en til 2022.

Slík niðurstaða yrði engu að síður þyrnir í augum sumra þingmanna Íhaldsflokks Theresu May.