Bretar hafa ekki einu sinni tilkynnt formlega um úrsögn sína úr Evrópusambandinu (ESB), hvað þá að samningaviðræður um úrgönguna hafi hafist, en samt skortir ekki á þrefið, svigurmælin og hótanirnar. Menn geta þá hlakkað til þess þegar ballið byrjar af alvöru!

Bretar hyggjast ganga úr Evrópusambandinu að fullu og öllu, en treysta á að ESB geri við þá viðskiptasamning eins og bandalagið er raunar skuldbundið til þess að gera. Innan bandalagsins, ekki síst meðal embættismanna þess í Brussel, eru hins vegar uppi þau sjónarmið að eigi bandalagið að lifa úrgöngu Breta af verði þeir að bera skarðan hlut frá borði.

„Það gengur ekki að ríki öðlist betri samning við ESB með því að standa utan þess en innan,“ segir Flæminginn Guy Verhofstadt, aðalsamningamaður ESB við Breta.

Þessi rök eru skiljanleg, en það er ekki víst að þau reynist haldmikil í samningaviðræðunum, hvenær svo sem þær nú hefjast. Og þau geta orðið til þess að þeir sem eftir sitja spyrji spurninga um hverju þeir séu að kosta til.

ESB heimtar lausnargjald

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú sett fram kröfu um að Bretar haldi áfram að greiða fé til Evrópusambandsins í fjögur ár eftir að samningar takast um úrgönguna, allt til ársins 2023. Þannig vill ESB að Bretar greiði eins konar „Brexit-reikning“ eða lausnargjald upp á um 70 milljarða evra eða jafnvirði ríflega 8.000 milljarða íslenskra króna. Aðeins að því skilyrði uppfylltu verði farið í að ræða viðskiptasamning milli Bretlands og ESB.

Markmið Evrópusambandsins með þessari kröfu er ekki aðeins að refsa Bretum fyrir ósvífnina, heldur einnig til þess að stoppa í 10 milljarða evru fjárlagagat sambandsins eftir að Bretar fara, en þeir hafa verið meðal helstu greiðenda til þess. Nái ESB ekki að slíta þessa aura af Bretum blasir við að annaðhvort þurfa hinar ríkari þjóðir sambandsins (t.d. Frakkar og Þjóðverjar) að láta meira af hendi rakna eða hinar snauð- ari (t.d. Spánverjar og Ungverjar) að fá minna í sinn hlut.

Bretar líta hins vegar svo á að þeim beri engin skylda til þess að greiða til sambandsins lengur en til 2020, þegar núverandi fjárlagaáætlun rennur út, og annað myndi reynast Theresu May forsætisráðherra mjög erfitt. ESB segir að til frádráttar þessari upphæð komi raunar hlutur Breta í eignum sambandsins, en reikninginn verði að greiða vilji Bretar semja um viðskiptaaðgang við ESB. Og Bretar fyrir sitt leyti fallast á að þessi mál verði að leysa samhliða. Það ber hins vegar verulega mikið í milli og samkomulag ekki augljóst.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .