Viðskiptablaðið hefur tekið saman nokkrar af stærstu erlendu fréttum ársins.

Bretar kjósa að yfirgefa ESB

Bretland er á leiðinni úr Evrópusambandinu (ESB). Þann 23. júní var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um málið og varð niðurstaðan sú að um 52 prósent kjósenda var fylgjandi úrsögn úr ESB en 48% vildu að Bretland yrði áfram í sambandinu. Þegar niðurstaðan var ljós sagði David Cameron, forsætisráðherra af sér embætti og Theresa May settist í stól forsætisráðherra. May hefur sagt að úrsagnarferlið hefjist í mars næstkomandi og áætlunin miði við að Bretland verði formlega komið úr sambandinu á vormánuðum 2019. Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni olli miklu fjaðrafoki og féll pundið til að mynda töluvert. Þess má geta að fyrir atkvæðagreiðsluna kostaði eitt pund um 180 íslenskar krónur en tveimur dögum seinna var það komið í 165 krónur. Í byrjun desember stóð pundið í um 140 krónum.

© european pressphoto agency (european pressphoto agency)

Hryðjuverkaárásir í Evrópu

Nokkrar hryðjuverkaárásir voru í Evrópu á árinu. Þann 22. mars létust 32 og yfir 300 særðust þegar þrír menn gerðu sjálfsmorðssprengjuárás á Zavantem flugvellinum í Brussel í Belgíu. Þann 28. júní létust 45 manns þegar þrír menn gerðu árás á Atatürk flugvöllinn í Istanbúl í Tyrklandi. Tveir árásarmannanna sprengdu sig í loft upp en sá þriðji var skotinn til bana af öryggissveitum Tyrklands. Þann 14. júlí ók hryðjuverkamaður flutningabíl inn í mikinn mannfjölda á strandgötunni Promenade des Anglais í Nice í Frakklandi. Alls 84 létu lífið og yfir 400 slösuðust. Maðurinn var skotinn til bana af lögreglu.