*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 5. júlí 2018 13:31

Brexit ógnar Jaguar Land Rover

Breski bílaframleiðandinn gæti hætt við 80 milljarða fjárfestingu vegna Brexit.

Ritstjórn
Ralf Speth forstjóri Jaguar Land Rover
epa

Breski bílaframleiðandinn Jaguar Land Rover gæti hætt við 80 milljarða punda fjárfestingu í Bretlandi ef að samningurinn um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu reynist fyrirtækinu óhagstæður. Þetta kemur í frétt BBC. Að sögn forstjóra fyrirtækisins er „hjarta og sál“ þess í Bretlandi. Hins vegar gæti slæmur samningur dregið hagnað félagsins saman um allt að 1,2 milljörðum punda á ári.

Tímasetning orða forstjórans Ralf Speth er engin tilviljun. Ríkisstjórn Bretlands tilgreindi fyrr í dag að hluti til hvernig tollum og vörugjöldum yrði háttað eftir að landið gengur úr ESB. „Við höfum varið um 50 milljörðum punda í fjárfestingar á síðustu fimm árum og áætlum að verja um 80 til viðbótar á næstu fimm árum. Þær áætlanir verða hins vegar settar úr skorðum komi til þess að útkoma samningsins verði slæm,“ sagði Speth. 

Þrátt fyrir að Jaguar Land Rover sé í eigu indverska fyrirtækisins Tata Motors er stærstur hluti starfsemi þess í Bretlandi. Um 40.000 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu auk þess sem 260.000 til viðbótar starfa í framleiðslukeðju þess. 

Fyrirtækið er ekki það eina til þess að lýsa yfir óvissu um frekari fjárfestingar í Bretlandi vegna Brexit. Bílaframleiðendurnir BMW og Nissan auk flugvélaframleiðandans Airbus hafa öll greint frá því að því að allar frekari fjárfestingar í Bretlandi séu til endurskoðunar og að hætt verði við þær ef landið yfirgefur ESB án þess að tryggja að óbreytt viðskiptaumhverfi.