Landamæri Írlands að Norður-Írlandi urðu óvænt að ásteitingssteini í samningaviðræðum milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Bretlands úr sambandinu. Evrópusambandið gerði nýja kröfu um að Norður-Írland myndi halda í tollareglur sambandsins eftir útgöngu Bretlands og vera áfram hluti að sameiginlega markaðnum. Vonast hafði verið eftir að hægt yrði að taka stór skref í fyrstu umferð samningaviðræðna fyrir áramót en hin nýja krafa gerir það ólíklegra að því er kemur fram á vef Bloomberg .

Evrópusambandið gerir þá kröfu að engin hörð landamæri verði á Írlandi eftir Brexit sem hefur í för með sér að regluverk verður að vera eins í báðum hlutum eyjunnar þ.e. á Írlandi og Norður-Írlandi.

Ljóst var að landamærin myndu verða eitt af þeim þremur málum sem þurfti að leysa úr í fyrstu umferð samningaviðræðanna en búist var við að málið yrði ekki tekið fyrir fyrr en búið væri að teikna um stóru línurnar í framtíðarsambandi Bretlands og Evrópusambandsins.

Ljóst er að Bretum mun reynast mjög erfitt að koma til móts við kröfur sambandsins sökum þess að Íhaldsflokkurinn neyddist til þess að fara í samsteypustjórn með Sambandsflokknum eftir síðustu kosningar sem myndi fyrr hætta í stjórninni en að samþykkja aðrar reglur á Norður-Írlandi en á Englandi.