Í dag er fyrsti dagur viðræðna um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (Brexit). Ráðherrann sem hefur umsjón með útgöngunni, David Davis, segir að hann haldi inn í viðræðurnar með jákvætt og uppbyggjandi hugarfar. Hann segir jafnframt að hann sé staðráðinn í að viðhalda sterku sambandi við Evrópusambandið. Frá þessu er greint í frétt BBC.

Yfirsamningamaður ESB, Michel Barnier, segir að hann vildi koma á fót megináherslumálum og tímaáætlun fyrir samningaviðræðurnar. Hlutir sem að þarf að semja um er meðal annars staða breskra ríkisborgara sem búa í löndum ESB, og öfugt, sem og um landamæri Bretlands og Evrópusambandsins, ásamt fjöldamörgum álitamálum.

Gert er ráð fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu í mars 2019, en kosið var um Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra. Viðræðurnar hefjast í byggingu framkvæmdaráðs ESB og seinna í dag verður haldinn fjölmiðlafundur með Davis, Barnier, og yfirmanni framkvæmdaráðsins.