Kröfuhafar og skuldabréfaeigendur Wow air funduðu í kvöld en nú er unnið að því að breyta kröfum og skuldum í 49% eignarhlut í Wow. Mbl.is greindi frá þessu fyrr í kvöld og samkvæmt fréttamiðlinum var einhugur á fundinum um þessa áætlun. Gangi það eftir þarf félagið að finna fjárfesta, sem vilja kaupa þau 51% sem standa útaf en það er nauðsynlegt eigi að takast að forða félaginu frá gjaldþroti. Samkvæmt mbl er 51% eignarhlutur falur á 40 milljónir dollara eða um fimm milljarða króna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra sagði í fréttum RÚV klukkan tíu í kvöld að stjórnvöld fylgdust með þróun mála og hefðu raunar gert það í um það bil eitt ár. Hún sagði að ef allt færi á versta veg, Wow air færi í þrot, þá yrði unnið samkvæmt ákveðinni viðbragðsáætlun, sem til væri í Stjórnarráðinu.

Fyrr í kvöld ítrekaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þá ákvörðun stjórnvalda að koma ekki að rekstri fyrirtækis í rekstraravanda eins og Wow air.