Jens Garðar Helgason er nýkjörinn formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem stofnuð voru með sameiningu Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslufyrirtækja í síðustu viku. Jens hefur verið framkvæmdastjóri Fiskimiða frá árinu 2001 og er jafnframt formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð.

„Ástæðan fyrir því að ég bauð mig fram til formennsku í samtökunum er sú að ég fékk hvatningu til að gefa kost á mér. Ég hef talað fyrir því á ýmsum vettvangi að þörf hafi verið á nýrri nálgun í umræðunni. Sem formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð hef ég bent á hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er fyrir þessi byggðarlög.“

Hvað varðar umræðuna um íslenskan sjávarútveg segir Jens að hann telji að hún hafi verið komin á ákveðnar villigötur. „Ég vil sjá fyrir mér að við tökum umræðuna um íslenskan sjávarútveg á allt annan stað en hún hefur verið. Ég vil að íslenska þjóðin sé stolt af sjávarútveginum, sem er frábær og skapandi grein. Ég vil einnig að fólk í sjávarútveginum sé stolt af því að vinna í geiranum. Það verður að fara með umræðuna á annan stað og upplýsa þjóðina um það hvað er í gangi. Ég held að mjög fáir geri sér grein fyrir því hvað er mikil gerjun og nýsköpun í sjávarútvegi í dag og það er eitthvað sem þarf að vekja athygli á.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .