Alþjóðlegi viðburðurinn Point Zero verður haldinn í Reykjavík dagana 21.-23. apríl. Í tengslum við hann fer fram ráðstefna í Gamla Bíói 22. apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsvarsmönnum ráðstefnunnar. Þar verður fjallað um þær gríðarlega hröðu breytingar sem hafa orðið í viðskiptalífinu og samfé- laginu öllu með tilkomu stafrænnar dreifingar og hvernig dregið hefur úr bilinu á milli framleiðenda og neytenda.

„Fjallað verður um hvernig bankar eru að breytast, samfjárfestingar, bitcoin og jafningjalán. Ásamt því verður fjallað um klæðanlegan vélbúnað (e. wearables), dulkóðuð auðkenni og deilihagkerfið. Einnig um samfélagsmiðla og hvernig nánd framleiðenda við neytendur er að breyta neysluvenjum. Markmiðið er að gefa íslensku athafnafólki, þennan síðasta vetrardag, pínu innsýn inn í framtíðina, upplifun og möguleika til þess að mynda ný tengsl. Geti þannig komið inn í sumarið með von í brjósti, uppfullir af nýjum hugmyndum og stærra tengslaneti,“ segir Ingi Björn Sigurðsson, einn af skipuleggjendum viðburðarins.

„Það er ljóst ef fyrirtæki ætla að halda samkeppnisforskoti þá verða þau að bregðast við þessum breytingum eða verða undir. Breytingar eru alþjóðlegar, þannig gæti fyrirtæki sem var stofnað í Silicon Valley í gær hrist í stoðum rótgróinna fyrirtækja á Íslandi eftir nokkra mánuði.“